Námið og námsmat

Námsleiðir

Forskóli

Markmið forskólans er að búa nemendur sem best undir hljóðfæranám. Nemendur fá alhliða þjálfun í tónlist. Mikið er lagt upp úr að nemendur læri tónlist í gegnum söng, hlustun, hreyfingu, leik og sköpun. Ýmis tákn og hugtök tónlistarinar eru kynnt og nemendum er kennt að leika á ásláttarhljóðfæri. Félagslegi þátturinn er mjög viðamikill í forskólanáminu, þar sem kennt er í 6-8 barna hópum. Yfirleitt eru nemendur í forskóla í 1-2 ár áður en hljóðfæri er valið.

Hljóðfæradeildir

Hljóðfæranám fer í flestum tilfellum fram í einkatímum og fá nemendur eina kennslustund á viku sem oftast er skipt í 2 mætingar í viku.

Nemendur geta valið um að fara klassíska/hefðbundna leið í tónlistarnáminu eða byggja nám sitt meira á rythmískri tónlist.

Hljóðfærakennarar semja einstaklingsbundna námsáætlun fyrir hvern nemanda, sem tekur mið af þroska hans, áhuga, vinnugleði og næmni. Munur getur verið á yfirferð nemenda, sumir vinna hraðar, aðrir hægar. Hljóðfæranám byggir á heimavinnu nemandans, þ.e. reglubundnum daglegum æfingum á hljóðfærið. Góðar æfingavenjur lærast smám saman eins og annað.

Miðað er við að nemendur kynnist sem flestum tónlistarstefnum í náminu. Nemendur eru hvattir til að leika af fingrum fram til jafns við hefðbundinn nótnalestur.

Nemendum gefst kostur á að taka þátt í ýmiskonar samspilum og hljómsveitarleik. Nemendur í hljóðfæranámi sækja einnig tíma í tónfræðagreinum.

Skólinn býður upp á kennslu á eftirfarandi hljóðfæri:

Námsferlinu er skipt í grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Misjafnt er hversu lengi nemendur eru að taka hvert stig en almennt eru nemendur lengur að ljúka stigum eftir því sem ofar dregur. Þetta er einnig misjafnt milli hljóðfæra.

Áfangapróf eru tekin þegar nemandinn er að mati kennara tilbúinn til þess og hefur tileinkað sér hæfilegt námsefni úr viðkomandi stigi samkvæmt hljóðfæranámskrá.

Allir nemendur skólans taka vorpróf.

Nemandi tekur þátt í opinberum tónleikum a.m.k. einu sinni á ári.

Tónfræðagreinar

Tónfræðagreinar eru skilgreindar í aðalnámskrá sem; tónfræði, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsaga, formfræði og kontrapunktur. Í grunn- og miðáfanga tónfræðanáms er ekki gert ráð fyrir hefðbundinni greinaskiptingu heldur samþættu námi þar sem inntak fyrrnefndra greina fléttast með ýmsum hætti saman við margvíslega virkniþætti svo sem hljóðfæraleik, söng, hreyfingu, lestur nótna og skráningu, hlustun, greiningu og sköpun.

Nemandi sem tekur stigspróf í hljóðfæraleik þarf að hafa lokið tónfræði sem er ekki meira en einu stigi neðar en stigsprófið á hljóðfærið.

Tónleikar og Tónfundir

Opinberir nemendatónleikar eru haldnir í Seljakirkju a.m.k. þrisvar sinnum yfir skólaárið. Einnig hafa nemendur leikið á tónleikum utan hverfisins og við ýmsa atburði á vegum Reykjavíkurborgar, Seljakirkju svo og við ýmiskonar tækifæri eins og á Sumardaginn fyrsta og fl.

Mikil áhersla hefur alltaf verið lögð á að nemendur þjálfist í að koma fram fyrir áheyrendur alveg frá byrjun tónlistarnámsins. Tónleikasókn hefur einnig mikilvægt gildi fyrir nemanda í hljóðfæranámi, þar sem hann lærir að hlusta á aðra flytja tónlist á hin ýmsu hljóðfæri.

Áhersla er einnig lögð á að nemendur undirbúi vel tónleikaverk sín og æskilegast er að leikið sé utanbókar.

Tónleikagestum ber að sýna flytjendum tilhlýðilega virðingu s.s. gefa gott hljóð og forðast óþarfa umgang og vera þannig góð fyrirmynd fyrir yngri áheyrendur.

Það er á valdi hvers kennara að skipuleggja tónfundi. En tónfundir hafa mikið félagslegt gildi og er góð þjálfun í tónlistarflutningi.

Námsmat

Eins og segir í Aðalnámskrá er námsmat öll viðleitni til að leggja mat á árangur skólastarfs og hvernig tekist hefur að ná settum markmiðum.

Megin tilgangur námsmats er að örva nemendur, aðstoða þá við námið og örva til sjálfsmats. Mat þarf að vera óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt. Meta þarf alla þætti námsins svo sem skilning, þekkingu, leikni og framfarir. Matið þarf að gefa glögga mynd af námi og kennslu í skólanum.

Áfangapróf

Í Aðalnámskrá fyrir Tónlistarskóla eru kynnt svokölluð áfangapróf.

Náminu er þá skipt niður í Grunnnám (1.-3. stig), Miðnám (4.-5. stig) og Framhaldsnám (6.-7. stig).

Grunnnáminu lýkur með Grunnprófi. Miðnámi með Miðnámsstigi og námi á framhaldsstigi lýkur með Framhaldsprófi.

Áfangaprófum er ætlað að tryggja ákveðna festu, aðhald og lámarkskröfur í náminu. Stefnt verður að því að sérþjálfaðir prófdómarar fari á milli skóla og dæmi. Þetta kerfi felur í sér breytingar frá fyrri stigaskiptingu. Stigin innan Grunnnáms verða umfangsminni en fyrstu stigin í eldra kerfinu.

Námstími verður eins og áður breytilegur og ræður þar mestu aldur og þroski nemandans.

Í Grunnnámi er miðað við að nemandi byrji 8 til 9 ára gamall. Gera má ráð fyrir að eldri nemendur fari hraðar yfir. Í Mið- og Framhaldsnámi eykst umfang námsins og lengist tíminn sem tekur að ljúka hverju stigi að sama skapi.

Prófgjöld vegna prófa á vegum Prófanefndar tónlistarskólanna, greiðast af nemendum.  http://www.profanefnd.is/ 

Menntamálaráðuneytið gefur út námskrár fyrir einstök hljóðfæri þar sem fram koma viðmiðunarverkefni fyrir einstök stig. Stigsprófin eru flest tekin í mars eða í byrjun maí, en þau má einnig taka á öðrum árstíma.

Þegar nemandi lýkur stigsprófi fær hann sérstakt skírteini sem er afhent við skólaslit. Hliðargreinarnar eru hluti af stigsprófinu og þarf að ljúka prófi í þessum greinum til að stigsprófið sé fullgilt.

Vorpróf

Vorpróf eru tekin á hverju vori áður en skóla lýkur og er miðað við að nemandi leiki tvö verk ásamt tónstiga. Tónfræðapróf eru munnleg og skrifleg.

Forskólanemendur taka einnig vorpróf þar sem þeir leika eða syngja tvö lög ásamt léttum eftirhermu-laglínum og hryn.

Samband milli heimilis og skóla

Gott samband milli heimilis og tónlistarskóla er afar þýðingarmikið, ekki síst með tilliti til þess að tónlistarnám er að mestu leyti sjálfsnám sem fram fer á heimili nemenda. Mikilvægt er því að koma á og viðhalda traustu sambandi milli skóla og heimila. Þetta samband má byggja upp með ýmsum hætti, svo sem með bréfum, símtölum, viðtalstímum og heimsóknum aðstandenda nemenda í skólann, allt eftir aðstæðum.

Foreldraviðtöl eru haldin ár hvert. Foreldrar eru hinsvegar hvattir til að hafa samband við kennara eða skólastjóra hvenær sem þurfa þykir.

Hvernig hægt er að fá sem mest út úr náminu

Ungum nemendum þarf að hjálpa við að skipuleggja æfingatíma sinn vel. Árangursríkara er að ungir nemendur æfi sig oftar og skemur í senn, en sjaldnar og lengur. Daglegar æfingar eru nauðsynlegar til að eðlilegar framfarir eigi sér stað. Ef nemandinn sýnir merki um leiða í námi er oft nóg að hafa samband við kennara og skipta um viðfangsefni til að glæða áhugann á ný. Áhugi foreldra og annara aðstandenda skiptir miklu máli og eru foreldrar hvattir til að sækja vel tónleika og fylgjast með framförum barna sinna

Scroll to top